„Það er enn þyngra þegar fjölmiðlar flytja rangar og villandi fréttir af atvikum og ganga nærri friðhelgi einkalífs okkar með myndbirtingum og síendurteknum hringingum í okkur, nánustu vini og ættingja.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í yfirlýsingu frá börnum hjónanna Evu Hrundar Pétursdóttur og Kára Kárasonar sem urðu fyrir skotárás manns aðfaranótt sunnudagsins þar sem Eva Hrund lést og Kári særðist alvarlega. Undir yfirlýsinguna rita börnin Sandra, Hilmar, Pétur og Karen.
Lífið breyst til frambúðar
Í yfirlýsingu barnanna segir að líf þeirra hafi breyst til frambúðar á sunnudaginn og verði aldrei aftur eins. „Við syrgjum móður okkar og faðir okkar er alvarlega særður á spítala. Okkur hafa borist hlýjar kveðjur og stuðningur úr öllum landshornum. Fyrir það erum við þakklát.
Það er erfiðara en orð fá lýst að ganga í gegnum það sem við erum að upplifa núna. Það er enn þyngra þegar fjölmiðlar flytja rangar og villandi fréttir af atvikum og ganga nærri friðhelgi einkalífs okkar með myndbirtingum og síendurteknum hringingum í okkur, nánustu vini og ættingja.“
Mikilvægast að faðirinn nái heilsu á ný
Þau biðla svo til fjölmiðla um að virða friðhelgi einkalífs þeirra, fjölskyldu og heimilis. Þau þurfi frið til þess að takast á við þetta áfall, til að syrgja móður sína og hlúa að föður sínum.
„Því í dag er ekkert mikilvægara en að hann nái heilsu á ný.
Allt sem við höfum að segja kemur fram hér að ofan. Við munum ekki tjá okkar frekar. Við ítrekum að við biðjum fjölmiðla að virða það,“ segir í yfirlýsingunni.
Lesa má yfirlýsinguna frá börnum hjónanna í heild sinni að neðan:
Á sunnudaginn breyttist líf okkar til frambúðar og verður aldrei aftur eins. Við syrgjum móður okkar og faðir okkar er alvarlega særður á spítala. Okkur hafa borist hlýjar kveðjur og stuðningur úr öllum landshornum. Fyrir það erum við þakklát.
Það er erfiðara en orð fá lýst að ganga í gegnum það sem við erum að upplifa núna. Það er enn þyngra þegar fjölmiðlar flytja rangar og villandi fréttir af atvikum og ganga nærri friðhelgi einkalífs okkar með myndbirtingum og síendurteknum hringingum í okkur, nánustu vini og ættingja.
Þess vegna viljum við góðfúslega biðja fjölmiðla um að virða friðhelgi einkalífs okkar, fjölskyldu og heimilis. Við þurfum frið til þess að takast á við þetta áfall, til að syrgja móður okkar og hlúa að föður okkar. Því í dag er ekkert mikilvægara en að hann nái heilsu á ný.
Allt sem við höfum að segja kemur fram hér að ofan. Við munum ekki tjá okkar frekar. Við ítrekum að við biðjum fjölmiðla að virða það.
Sandra, Hilmar, Pétur og Karen.
Rannsókn miðar vel
Fram kom í yfirlýsingu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra í gær að rannsókn málsins miði vel, en meðal þess sem verið er að rannsaka er hvernig andlát árásarmannsins bar að og er talið að réttarkrufning muni leiða dánarorsök í ljós.
Árásarmaðurinn, Brynjar Þór Guðmundsson, var látinn þegar lögreglu bar að garði á sunnudaginn og var tvennt handtekið á vettvangi – sonur hjónanna, Hilmar Þór, og unnusta hans. Þeim var svo sleppt samdægurs að loknum skýrslutökum. Samkvæmt heimildum fréttastofu yfirbugaði Hilmar Þór vopnaðan skotárasarmanninn með þeim afleiðingum að hann lést.