Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra fundaði með ríkislögreglustjóra í gær þar sem meðal annars var rætt um getu lögreglu til að fást við óvenjulegar og erfiðar aðstæður og öryggi almennings. Jón segir að verið sé að endurskoða vopnalög og frumvarp væntanlegt í haust. Nú séu um 77 þúsund skotvopn skráð hér á landi sem sé ekki óvenjulega mikið.
„Við erum rótgróið veiðimannasamfélag í margar aldir sem er auðvitað grunnur að því að skotvopn eru tiltölulega algeng hér. Það er hins vegar fátítt að einhver óhöpp eða atburðir séu sérstaklega tengdir því. Það er hlutfallslega ekki meira um alvarleg atvik vegna skotvopna hér á landi en hjá nágrannaþjóðum,“ segir Jón.
Hann segir hins vegar brýnt að fara meðal annars yfir hvernig skotvopn almenningur megi eiga.
„Það þarf að skoða eign almennings á margskotavopnum, þá hvort það sé eðlilegt að slík vopn séu á heimilum landsmanna. Fara yfir reglur um byssusöfnun og hvernig vopn eru geymd. Þá vitum við að það er brotalöm í skráningu vopna,“ segir Jón.
Áhyggjur af auknum vopnaburði ungmenna
Hann segist einnig hafa miklar áhyggjur af fjölgun mála þar sem eggvopn koma við sögu.
„Það er aukning fyrst og fremst í eggvopnum en sú þróun er mikið áhyggjuefni bæði þegar kemur að öryggi almennra borgara og lögreglunnar. Þetta er í sérstakri skoðun“ segir Jón.
Aðspurður um hvort verið sé að fara yfir vopnaburð lögreglu en eins og er þá bera lögreglumenn kylfur og sprey.
„Það er allt í skoðun. Það er allt til umræðu í þessu en það er ekki til umræðu að lögreglan beri á sér skotvopn,“ segir Jón Gunnarsson.