BBC greinir frá og vitnar í greiningu orkurannsóknarfyrirtækisins Rystad Energy. Í frétt BBC segir að Rússar brenni gasi að virði tíu milljónir dollara á degi hverjum, um 1,4 milljarð króna, í Portovaya-gasvinnsluverinu, ekki langt frá St. Pétursborg, skammt frá landamærum Finnlands og Rússlands.
Sérfræðingar segja að alla jafna færi gasið um gasleiðslur frá Rússlandi til Þýskalands, en gasvinnsluverið er skammt frá þrýstistöð við upphaf Nord Stream 1 gasleiðslurnar.
Vegna stríðs Rússa í Úkraínu hefur dregið úr gassendingum í gegnum leiðsluna. Rússar segjast hafa átt í tæknilegum vandræðum með hana en þýsk yfirvöld segja að ástæðan sé pólitísks eðlis, vegna andstöðu vestrænna ríkja við aðgerðum Rússa í Úkraínu.
Í frétt BBC segir að íbúar Finnlandsmegin við landamæri Finnlands og Rússlands hafi í sumar tekið eftir gríðarstórum loga við sjóndeildarhringinn.

Ekki er óalgengt að afgangsgasi sé brennt í gasvinnsluverum. Sérfræðingar við BBC segja hins vegar að gögn bendi til þess að óvenjumiklu gasi sé brennt við umrætt gasvinnsluver.
Sérfræðingar telja líklegt að bruninn sé vegna tæknilegra vandamála
Í frétt BBC er rætt við Mark Davis, forstjóra fyrirtækis sem sérhæft hefur sig í að finna lausnir til að koma í veg fyrir að afgansgasi sé brennt í gasvinnsluverum.
„Rekstraraðilar eru oft tregir til að slökkva á verunum í ótta um að það geti reynst tæknilega erfitt að koma þeim aftur af stað. Það er líklega það sem um ræðir hér,“ er haft eftir Davis.
Þá er einnig rætt við Esa Vakkilainen, prófessor í verkfræði, við LUT-háskólann í Finnlandi. Hann telur líklegt að ástæðan sé tæknilegs eðlis.
„Svona bruni í svona langan tíma gæti þýtt að það vanti einhvern tæknibúnað,“ er haft eftir Vakkilainen sem bendir til viðskiptaþvingana vestrænna ríkja á Rússa.
„Vegna þess geta þeir ekki framleitt þá loka eða ventla sem standast gæðakröfur og er þörf á í olíu-og gasvinnslu. Mögulega er einhverjir ventlar brotnir sem ekki er hægt að skipta út.“