Til stóð að Crypto.com og Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, myndu gera með sér fimm ára samning virði rúmlega 700 milljarða íslenskra króna, sem var nálægt því að vera í höfn. Crypto er hins vegar sagt hafa hætt við samninginn á síðustu stundu vegna áhyggja yfir regluverki á Bretlandi, Frakklandi og Ítalíu. Fyrirtækið hefur átt í lagalegu stappi vegna réttinda til að starfa og stunda viðskipti í löndunum þremur.
Crypto.com hefur ráðið sér mikið til rúms á íþróttamarkaði að undanförnu en fyrirtækið keypti nýverið nafnaréttindi Staples Center, körfuboltahallarinnar í Los Angeles, á 20 ára samningi fyrir 700 milljónir dollara. Þá hefur fyrirtækið verið áberandi í Formúlu 1 keppnum að undanförnu eftir 150 milljón dollara samning við ökukeppnina.
Fyrirtækið hefur, líkt og önnur sem koma að rafmyntum, átti í vandræðum að undanförnu þar sem virði rafmynta hefur hríðfallið undanfarna mánuði. Bitcoin hefur til að mynda hrunið úr því að vera virði 69 þúsund dollara í nóvember í fyrra í 20 þúsund.
UEFA leitar áfram að nýjum styrktaraðila fyrir Meistaradeildina. Sambandið rifti samningi sínum við ríkisrekna rússneska orkufyrirtækið Gazprom. Sú ákvörðun var tekin í mars eftir innrás Rússlands í Úkraínu.