Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkaupum. Segir að með lækkununum sé markmiðið að sporna gegn áhrifum verðbólgu á dagleg innkaup landsmanna. Fyrirtækið fylgir þar með í fótspor til að mynda Krónunnar, sem tilkynnti á dögunum að ákveðið hafi verið að frysta verð á rúmlega tvö hundruð vörum.
Telur verðhækkanir frá framleiðendum og birgjum óþarfar
Haft er eftir Gunnari Agli Sigurðssyni, forstjóra Samkaupa, að fyrirtækið hafi lagt allt kapp á að berjast gegn hækkunum á vöruverði og tekist að halda hækkunum í lágmarki til að mynda með innflutningi á vörumerkjum eins og Änglamark og X-tra.
„Þetta þýðir að verðlækkanirnar sem tóku gildi á mánudaginn eru verulegar. Við bjóðum viðskiptavinum okkar því sama verð eða lægra en það var í upphafi árs. Við höfum verið að fá gríðarlegar verðhækkanir til okkar frá framleiðendum hér heima og birgjum, margar teljum við óþarfar og að okkar mati hefur verið of auðvelt fyrir þessa aðila að velta öllum hækkunum út í verðið. Það skrifast á litla samkeppni, sterka stöðu fárra stórra birgja og verndartolla á íslenskri framleiðslu, til að mynda á mjólk og kjöti,” segir Gunnar Egill.

Engin viðbrögð frá birgjum og framleiðendum
Ennfremur segir að síðastliðið haust hafi Samkaup sent frá sér bréf á alla sína birgja og samstarfsaðila þar sem kallað hafi verið eftir samstarfi til að spyrna gegn hækkunum í vöruverði án nokkurra undirtekta.
„Í lok sumars sendi félagið aftur bréf á tíu stærstu birgja Samkaupa þar sem óskað var eftir fimm prósenta verðlækkun til áramóta sem þá gætu skilað sér beint til viðskiptavina, með tilliti til þess að heimsmarkaðsverð fer lækkandi og sömuleiðis stór hluti þeirra vara sem Samkaup flytur inn til landsins, einnig án nokkurs árangurs,“ segir í tilkynningunni.
Samkaup reka rúmlega sextíu verslanir undir vörumerkjum Nettó, Krambúðarinnar, Kjörbúðarinnar og Iceland.