Belgar enduðu fyrir neðan Noreg í sínum riðli í undankeppninni og þurfa því að fara í umspil líkt og Ísland sem endaði fyrir neðan Holland.
Belgar mæta Portúgölum á útivelli í fyrri hluta umspilsins, 6. október, en það lið sem vinnur þann leik mun svo mæta Íslandi á heimavelli, 11. október, í seinni hluta umspilsins.
„Við þurfum svo sannarlega að vera góð til að komast á HM,“ sagði Ives Serneels, þjálfari Belga, sem mættu einmitt Íslandi á EM í Englandi í sumar þar sem liðin gerðu 1-1 jafntefli. Belgar komust þó áfram í 8-liða úrslit á mótinu en Íslendingar ekki.
„Við þurfum að vinna Portúgal sem er lið sem við höfum mætt nokkrum sinnum. Þeir leikir hafa verið mjög jafnir. Þetta er lið á uppleið í fótbolta kvenna, með marga hæfileikaríka og unga leikmenn. Portúgal er í raun talsvert líkt Belgíu,“ sagði Serneels.
„Svo halda allir of fljótt að það verði bara hægt að vinna Ísland. Við vitum hins vegar að það lið er mjög fast fyrir og með mikið af einstaklingsgæðum. Við þurfum að vera góð til að komast á HM,“ sagði Serneels.
