Margrét Þórhildur tók við völdum í Danmörku þann 14. janúar 1972 og í dag var haldið upp á fimmtíu ára valdaafmæli hennar.
Hátíðarhöldin hófust með hátíðarguðsþjónustu og að henni lokinni bauð drottningin konungshjónum Noregs og Svíþjóðar og forsetahjónum Íslands og Finnlands til hádegisverðar um borð í konunglega skipinu Dannebrog.
Á meðan gestir snæddu hádegisverð var Dannebrog siglt um Eyrarsund.
Lengst við völd allra í Evrópu
Í kvöld var svo haldinn hátíðarkvöldverður í Kristjánsborgarhöll þar sem drottningin ávarpaði veislugesti. Hún hóf ræðu sína á því að minnast Elísabetar annarrar Bretlandsdrottningu, sem féll frá á fimmtudag, og biðja veislugesti að rísa á fætur og halda þögn í eina mínútu henni til heiðurs.
Eftir fráfall Elísabetar er Margrét Þórhildur sá þjóðarleiðtogi sem lengst hefur verið við völd í Evrópu. Aðeins Hassanal Bolkiah, soldáninn af Brúnei, hefur verið lengur við völd en Danadrottning.
Undir lok ræðu sinnar sagði Margrét Þórhildur að engar þjóðir í heiminum væru nánari en Norðurlandaþjóðirnar og því vildi hún sérstaklega bjóða velkomin þau Karl Gústaf konung og Silvíu Svíadrottningu, Harald konung og Sonju Noregsdrottningu, Sauli Niinistö Finnlandsforseta og frú Jenni Haukio; og Guðna Jóhannesson forseta Íslands og frú Elizu Reid.