Í dag var greint frá því að fjöldi tilkynninga um heimilisofbeldi hefði aldrei verið meiri en á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Lögreglan á landsvísu hafi fengið 1232 tilkynningar um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila. Jafngildir það sjö slíkum tilkynningum á dag eða 205 tilkynningum á mánuði. Um er að ræða tæplega þrettán prósenta aukningu samanborið við síðustu þrjú ár þar á undan.
Þá var einnig greint frá því að á sama tímabili hafi lögreglan skráð 125 tilkynntar nauðganir. Það eru 21 tilkynning á mánuði og 28 prósent fjölgun frá því á síðasta ári.
„Það hefur verið skýrt markmið hjá stjórnvöldum að annars vegar fækka brotum og hins vegar fjölga tilkynningum. Og ég held að það endurspeglist í raun og veru, bæði í tilkynningum varðandi heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi, að fólk er að leita sér aðstoðar og það sé að tilkynna til lögreglu,“ segir Eygló Harðardóttir, verkefnastjóri aðgerða gegn ofbeldi hjá ríkislögreglustjóra, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Einungis einn af hverjum tíu þolendum tilkynnir
Eygló segir að í nýrri skýrslu Stígamóta segi að einungis einn af hverjum tíu, sem leita til miðstöðvarinnar eftir að hafa lent í kynferðisofbeldi, tilkynni brotin til lögreglu. „Þetta er að okkar mati alveg óásættanlegt,“ segir hún.
Þess vegna sé það markmið stjórnvalda, með vitundarvakningu sem ráðist hefur verið í í vetur og sumar, að hvetja til þess að annars vegar að samfélagið minnki svigrúm gerenda til að brjóta á þolendum og hins vegar að hvetja til þess að brot séu tilkynnt til lögreglu.
Að lokum segir Eygló að lögreglan hafi ráðist í mikla vinnu undanfarið til þess að bæta það hvernig hún vinnur og að koma þeim upplýsingum á framfæri. Því vonar hún þolendur séu ekki hræddir um að kerfið muni bregðast þeim.