Kristín Ólafsdóttir fréttamaður er stödd í Lundúnum og lýsti lýsti stemmningunni þar í borg í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Viðbúnaður lögreglu er gríðarlegur og er búist við því að útförin slái öll áhorfsmet í Bretlandi.
Kristín spjallaði einnig við samlanda sína og aðra sem höfðu beðið lengi í röð til að vitja drottningar.
„Þetta var svolítil upplifun, mjög íburðamikið og magnað að sjá kistuna og krúnudjásnin ofan á. Það var verið að skipta um verði þegar ég kom þarna inn sem jók á sjónarspilið. Þannig það var bara ótrúlegt að sjá þetta,“ segir Arnór Gunnar Gunnarsson, sagnfræðingur sem beið í þrettán og hálfan tíma áður en hann komst loks að líkkistu drottningar.
„Það voru margir sem felldu tár, þetta var mjög tilfinningaþrungið,“ segir Arnór einnig.
Harpa Hrund Berndsen og María Margrét Jóhannsdóttir segja ekkert annað hafa komið til greina en að fljúga út til Lundúna þegar fregnir af andláti drottningar fóru að berast.
„Við erum búnar að fylgjast með henni í gegnum tíðina,“ segir Harpa.
Hún var ykkur kær, er það ekki?
„Jú, við höfum verið að fylgjast með henni lengi og allri fjölskyldunni.“
Þær Harpa og María þurfa þó ekki að bíða í röð til að votta Elísabetu virðingu sína þar sem þær fengu nokkurs konar boðskort
„Maður er nú með smá samviskubit að þurfa ekki að bíða í röð í þrettán klukkutíma og ég vona að það verði ekki baulað á okkur. En maður lætur sig hafa þetta,“ segir María að lokum.
Streymt verður frá útför Elísabetar II Bretadrottningar á Vísi og á sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísi á morgun. Útsendingin hefst klukkan níu en athöfnin sjálf hefst klukkan tíu að íslenskum tíma.