Markmiðið með samstarfinu er að auka vitund um starfsemi Ljóssins og fjölga þeim sem styðja við bakið á því, en Ljósið er endurhæfingardeild fyrir krabbameinsgreinda sem upphaflega hófst sem tilraunaverkefni á vegum Landsspítala Háskólasjúkrahúss árið 2002.
Í þessu skyni mun lið Álftaness spila í búningum merktum Ljósinu og auka sýnileika Ljóssins í tengslum við viðburði félagsins.
Þá mun allur ágóði af fyrsta heimaleik Álftaness renna óskertur til Ljóssins en fyrsti leikurinn verður á móti Þór Akureyri þann 23. september kl. 19:15. Til að styðja við framtakið á föstudaginn hefur Halldór Kristmansson, einn af bakhjörlum körfuknattleiksdeildarinnar í vetur, heitið einni milljón króna til styrktar Ljósinu.
„Ég þekki vel til starfsemi Ljóssins sem og uppbyggingarinnar á körfunni á Álftanesi og vil því leggja mitt að mörkum til að styðja við þetta samstarf,“ sagði Halldór.
Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Álftaness, segir að samstarfið gangi út á að lyfta starfsemi Ljóssins í gegnum körfubolta, ensa vinni Ljósið ómetanlegt starf í íslensku samfélagi.
„Ljósið vinnur ómetanlegt starf í íslensku samfélagi,“ sagði Huginn við undirritun samningsins.
“Samstarf okkar við Ljósið gengur út á það að lyfta þessu starfi í gegnum körfubolta og þakka fyrir það. Við viljum svo auðvitað fylla húsið í fyrsta heimaleik þannig að sem mest renni til þessa frábæra starfs.“