Tófan sást fyrst í Breiðholti á mánudaginn við Stekkjarbakka í Breiðholti. Anton Magnússon, starfsmaður Garðheima við Stekkjarbakka, náði myndbandi af tófunni og sagði í samtali við fréttastofu að hann hafi náð að klappa henni aðeins áður en hún stakk af.
Í gær sást tófan síðan bæði í Árbænum og Grafarholti, sannkölluð úthverfatófa. Hún heimsótti meðal annars nemendur Ártúnsskóla og gæddi sér á túnfiskssamloku eins nemanda sem hafði gleymt henni á steini á skólalóðinni.

Dýraþjónusta Reykjavíkur birti færslu í gær á Facebook-síðu sinni um tófuna og segja hana ekki vera hættulega mönnum eða köttum. Refir forðast menn og kettir eru sneggri en refir. Þá geta refir ekki klifrað upp í tré annað en kettirnir.
Hvar tófan hélt sig áður en hún fór í borgarferð sína er ekki vitað, þó er staðfest að hún kemur ekki úr Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Talsvert er um refi í umhverfi borgarinnar, til dæmis í Heiðmörk.
Dýraþjónustan vekur athygli á því að mögulega hafi tófan verið í haldi manna áður þar sem þær eru venjulega afar styggar og forðast fólk. Því er ólíklegt að vilt tófa sé jafn ljúf við fólk eins og umrædd tófa var þegar starfsmaður Garðheima nálgaðist hana.
Þeir sem verða varir við tófuna eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Dýraþjónustuna.