Tveir karlmenn á þrítugsaldri voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna gruns um vopnaframleiðslu og skipulagningu hryðjuverks. Annar þeirra var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald en hinn í einnar viku varðhald. Tveir menn til viðbótar voru handteknir í aðgerðum lögreglu á miðvikudag en sleppt úr haldi.
Tíminn sem mennirnir tveir hafa verið úrskurðaðir í varðhald hefur verið til nokkurrar umræðu á samfélagsmiðlum og fólk velt fyrir sér hvers vegna varðhaldið vari svo stuttan tíma að þeirra mati.
Einnar viku gæsluvarðhald yfir meintum hryðjuverkamanni. Það er eitthvað hérna sem ekki gengur upp.
— pallih (@pallih) September 24, 2022
Tja það er einhver ástæða fyrir stuttu gæsluvarðhaldi??
— Þórir Grétar (@ThorirGretar) September 24, 2022
Það er allavega galið að setja bara viku gæsluvarðhald á einhvern sem er að plana fjöldamorð.
— Snæbjörn (@artybjorn) September 24, 2022
Stórundarlegt allt saman. Ef menn voru með raunverulegt hryðjuverk planað af hverju bara vika og 2 í gæsluvarðhald?
— Kleópatra Mjöll (@greatkleo) September 24, 2022
Burðardýr fá lengri tíma.
Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra sagði í samtali við fréttastofu í dag að óskað hafi verið eftir tveggja vikna gæsluvarðhaldi yfir báðum mönnunum en Héraðsdómur aðeins fallist á þá kröfu yfir einum mannanna. Það sé hefðbundið að óska eftir tveggja vikna varðhaldi fyrst um sinn í málum sem þessum og svo eftir framlengingu þegar meira er komið í ljós.
Lögregla hefur ekki viljað veita viðtöl vegna málsins og að sögn hennar er rannsókn þess í fullum gangi. Að mörgu sé að hyggja og takmarkaður tími sé til rannsóknar, sérstaklega vegna lengdar gæsluvarðhaldsins yfir öðrum manninum, sem rennur út á miðvikudag.
Ómar Örn Bjarnþórsson, lögmaður mannsins sem var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald, sagði í samtali við fréttastofu í dag að fólk, þar á meðal þingmenn, færi fram með of miklu offorsi í málinu. Það þyrfti að anda með nefinu og sjá hvort grunsemdir lögreglu séu á rökum reistar.
Samkvæmt heimildum fréttastofu hafði annar mannanna sem nú er í varðhaldi verið handtekinn á þriðjudag fyrir rúmri viku í tengslum við rannsókn lögreglu á framleiðslu og sölu skotvopna. Hann var þá settur í vikulangt gæsluvarðhald og látinn laus á þriðjudag. Eftir það virðist sem mennirnir hafi hafið samskipti sem lögregla telur benda til að þeir hafi verið að skipuleggja hryðjuverk. Heimildir fréttastofu herma að í samskiptum mannanna hafi meðal annars verið rætt um fjöldamorð í samhengi við lögreglu og stofnanir ríkisins.