Búist er að versta veðrið verði á Austfjörðum, þar sem hin sjaldgæfa rauða veðurviðvörun er í gildi frá hádegi á morgun fram á kvöld. Þá er appelsínugul viðvörun í gildi fyrir Austurland að Glettingi, Norðurland eystra og Suðausturland.
Veðurviðvaranirnar sem í gildi eru einkum vegna mikils vinds. Landhelgisgæslan vekur athygli á því að samhliða þessum hvassa vindi megi búast við talvert mikilli ölduhæð norður og austur af landinu, sem og brimi við ströndina.
„Nú er stækkandi straumur og þar sem gera má ráð fyrir talsverðum áhlaðanda við norður- og norðausturströndina gæti sjávarstaða þar orðið hærri en að öllu jöfnu,“ segir í færslu Landhelgisgæslunnar á Facebook.
Hvetur Landhelgisgæslan eigandendur báta í höfnum til að huga að þeim og að þeir sem eru á ferð við ströndina sýni aðgæslu, þar sem sjór geti gengið á land.