Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Austurlandi. Þar segir að áhyggjur hafi verið í gærkvöldi af áhlaðanda úti fyrir Borgarfirði eystra. Aðstæður hafi verið svipaðar þeim sem uppi voru í janúar 2021 og ullu skemmdum á bátum í höfn og húsum.
„Talsverður viðbúnaður var af þeim sökum á Borgarfirði í gær. Aðgerðir gengu vel og lítið sem ekkert tjón að því er virðist í höfninni eða annarsstaðar,“ segir í tilkynningunni.
Nokkrar hjálparbeiðnir til björgunarsveita hafi borist með morgninum vegna foks á Reyðarfirði, í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Veður sé því enn slæmt á fjörðunum og full ástæða til að fara varlega.

„Sveitarfélögin Múlaþing og Fjarðabyggð munu hefja hreinsunar- og viðgerðarstarf um leið og veður leyfir. Talsvert verk bíður sveitarfélaganna við það verk sem og fyrirtækja, stofnana og einstaklinga sem hafa mátt þola tjón vegna óveðursins,“ segir í tilkynningu lögreglu.
Lögreglan hvetur til áframhaldandi varkárni vegna veðurs og um leið þakkar íbúum fjórðungsins fyrir þann góða viðbúnað sem sýnilega hafi verið viðhafður í aðdraganda þess þar sem lausamunir voru tryggðir eins og hægt var og ferðalögum frestað.
„Það létti á viðbragðsaðilum og má fullyrða að hafi komið í veg fyrir frekara tjón og jafnvel slys.“