Virði hlutabréfa Credit Suisse hefur fallið um rúm sextíu prósent það sem af er árs og um tæp tíu prósent bara í dag. Fallið kemur í kjölfar umfjöllunar helstu fjölmiðla heims um slaka fjárhagsstöðu bankans en Credit Suisse hefur lent í þónokkrum skandölum upp á síðkastið.
Samkvæmt The Guardian mun bankinn þurfa að segja upp allt að fimm þúsund starfsmönnum, selja eignir og biðja fjárfesta um pening til þess að koma sér úr fjárhagslegum erfiðleikum sínum. Árið 2020 skilaði bankinn fjögur hundruð milljarða króna hagnaði en í fyrra var afkoman tap upp á tæpa 250 milljarða króna.
Credit Suisse is probably going bankrupt $CS
— Wall Street Silver (@WallStreetSilv) October 1, 2022
The collapse in Credit Suisse's share price is of great concern. From $14.90 in Feb 2021, to $3.90 currently.
And with P/B=0.22, markets are saying it's insolvent and probably bust.
2008 moment soon ?
Systemic risk bank. pic.twitter.com/tbYgdGYOMY
Í fyrra tapaði bankinn gífurlegum upphæðum vegna fjárfestingar í fyrirtækinu Greensill og í vogunarsjóðnum Archegos. Stofnandi Archegos hefur verið ákærður fyrir fjárkúgun og svik eftir að sjóðurinn varð gjaldþrota. Þá þurfti bankinn að greiða tæpa sextíu milljarða króna sekt vegna svika í kringum viðskipti með túnfisk í Mósambík.
Fyrr á árinu var einnig upplýsingum um viðskiptavini bankans lekið til fjölmiðla en margir þeirra voru með óhreint mjöl í pokahorninu. Meðal annars mátti finna menn sem höfðu verið dæmdir fyrir að þiggja mútur og sænskan mann sem hafði verið dæmdur fyrir mansal.
Ulrich Körner, forstjóri Credit Suisse, sendi um helgina minnisblað á starfsmenn bankans þar sem hann sagði starfsfólki að trúa ekki því sem kæmi fram um fyrirtækið í fjölmiðlum. Hann vill meina að margt af því sem þar kæmi fram væri alls ekki rétt og að fjárhagsstaða bankans væri ekki í samræmi við verð hlutabréfa.