Neytendur

Jólakjötið tölu­vert dýrara í ár

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Fjöldi Íslendinga gæðir sér á hamborgarhrygg yfir hátíðarnar.
Fjöldi Íslendinga gæðir sér á hamborgarhrygg yfir hátíðarnar. Getty

Jólakjötið hefur hækkað töluvert milli ára samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ. Ódýrasta hamborgarhrygginn og hangikjötið má finna í verslunum Prís en lítill verðmunur er á kalkún milli verslana. Klassískar jólavörur eru dýrari en áður en veganmatur er ódýrari.

Að jafnaði hefur kjötvara hækkað um 6, 6 prósent milli ára og lambakjöt um 8,6 prósent. Þar með talið er jólakjötið sjálft, hamborgarhryggurinn, hangilærið og kalkúninn.

Ódýrasta hamborgarhrygginn má finna í Prís, en hamborgarhryggurinn í Bónus og í Krónunni er um hundrað krónum dýrari samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ. Dýrasta hamborgarhrygginn má finna í verslunum Hagkaupa.

Leiti landsmenn að úrbeinuðum hamborgarhrygg er sá ódýrasti í Krónunni en sá í Bónus kostar einungis níu krónum meira. Úrbeinaðan hamborgarhrygg frá SS er hægt að versla í fjórum verslunum, sá ódýrasti í Bónus en sá dýrasti í Fjarðakaupum á rúmar þrjú þúsund krónur á kílóið.

Ali hamborgarhrygg má finna í fimm verslunum, ódýrast í Prís og dýrast í Hagkaup. Hamborgarhryggur frá Kjarnafæði er hins vegar ódýrastur í Fjarðakaupum en hann fæst líka í Hagkaup og kostar um tvö hundruð krónum meira. Þá er hamborgarhryggur SS ódýrastur í Bónus en dýrastur í Fjarðakaupum.

Lítill verðmunur á kalkún

Ekki kjósa allir sér hamborgarhrygg sem jólakjöt. Úrbeinaða hangilærið er ódýrast í Prís en ódýrasta kílóverðið í Bónus en einnar krónu munur er á Bónus og Krónunni. Kílóverð hangilæris með beini er þá nokkuð lægra en það allra ódýrasta er í Bónus.

Lítill verðmunur er á kalkúni milli verslana en hann var fáanlegur á undir 2400 krónur í Bónus, Krónunni og Fjarðakaupum. Dýrastur er hann í verslunum Nettó og Hagkaupa. Ódýrasta nautalundin er í Prís og sú dýrasta í Kjörbúðinni. Hins vegar er töluverður munur á verði á nautalundum sem skýrist af ólíkum vörum og ólíkum uppruna.

Ódýrasta andabringan er í Nettó, en hún var á afslætti þegar ASÍ framkvæmdi verðlagseftirlitið. Andabringan í Prís var 21 prósent dýrari en sú í Nettó. Þær dýrustu má kaupa í Hagkaup.

Veganvörurnar ódýrari

Þá eru ekki allir sem vilja jólakjöt yfirhöfuð. Á meðan dýraafurðir hafa hækkað töluvert hefur verð á mörgum jurtaafurðum hækkað lítið eða jafnvel lækkað. Í mælingu ASÍ í nóvember var tófú rúmu prósenti ódýrari heldur en árið áður. 

Matvara kostaði að meðaltali 4,7 prósentum meira en flestar veganvörur hækkuðu minna en meðaltalið. Jurtamjólk hækkaði um 4,5 prósent milli ára, rótargrænmeti um 0,9 prósent og grænmeti á við tómata og gúrku um 2,4 prósent. Þá hefur verðið á kjúklingabaunum lækkað um tvö prósent.

Jóladrykkirnir sveiflast í verði

Jólavörurnar sjálfar kosta meira en áður. Malað jólakaffi frá Te & kaffi kostaði fyrst um sinn fimmtán prósentum meira en í fyrra, en verðið var lækkað og um síðustu mánaðamót var verðið tíu prósent hærra en í fyrra. 

Verðið á Malt & appelsín-dósum hefur einnig sveiflast en í byrjun desember kostaði dósin þremur prósentum meira en í fyrra. Jólatertan sem svo margir bíða spenntir eftir ár hvert er ódýrast í Prís en verðið hefur samt sem áður hækkað um átta prósent milli ára.

Kristjáns ósteikt laufabrauð hækkaði um sjö prósent milli ára og kíló af Nóa konfekti um níu prósent. Það er samt sem áður minni hækkun heldur en á öðru sælgæti þar sem meðalverð á vörum Nóa Síríus hefur hækkað um nítján prósent milli ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×