Samskipti Íslands og Bandaríkjanna hafa verið mikil og náin allt frá síðari heimsstyrjöld og Bandaríkin voru fyrsta ríkið til að viðurkenna sjálfstætt íslenskt lýðveldi árið 1944. Hópur fyrrverandi fulltrúadeildarþingmanna er nú staddur hér á landi í boði Félags fyrrverandi þingmanna og skoðaði hópurinn Höfða í morgun og heimsótti síðan Alþingi.
Það er ekki á hverjum degi sem fyrrverandi bandarískir þingmenn sitja í þingsal á Íslandi. Það gerðist einmitt í dag þegar hópur fyrrverandi þingmanna heimsótti Alþingi. Þeir sýndu sýndu sögu þingsins mikinn áhuga.

Sólveig Pétursdóttir fyrrverandi forseti Alþingis og formaður Félags fyrrverandi þingmanna og Kristín Einarsdóttir núverandi formaður félagsins tóku á móti hópnum. Birgir Ármannsson forseti Alþingis fór yfir sögu og starfsemi þingsins og svaraði fyrirspurnum.
Demókratinn Martin Frost sat í fulltrúadeildinni fyrir Texas í 26 ár og Republikaninn Connie Morella fyrir Maryland í sautján ár. Eftir það var hún sendiherra Bandaríkjanna hjá Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD, í París þar sem hún kynntist Íslendingum. Rödd Íslands væri kröftug og mikilvæg innan NATO og fleiri alþjóðastofnana.

„Ísland er kannski fámennasta þjóðin en á fundum OECD var Ísland í forystu rétt eins og Bretland, Þýskaland og Bandaríkin. Rödd Íslands var jafnvíg og annarra og fólk hlustaði á ykkur. Það hefur borið vel á Íslandi þrátt fyrir smæðina og þjóðin er stór í ljósi áhrifa sinna,“ segir Morella.

Frost segir Ísland og Bandaríkin eiga samleið á mörgum sviðum. Þjóðirnar geti til að mynda unnið saman á sviði nýtingar endurvinnanlegrar orku og loftslagsmála.
„Við berum virðingu fyrir landi ykkar. Þið hafið átt þjóðþing um langt skeið. Þegar ég tala við nemendur og aðra hópa er ég oft minntur á að þið hafið átt ykkur lýðræðislega þjóðþing lengur en Bandaríkin. Þið búið að ríkri lýðræðishefð. Við viljum starfa með ykkur. Oft á tíðum getum við mikið að ykkur lært,“ segir Frost.
Lengra viðtal við þau Morella og Frost má finna áspilaranum hér fyrir neðan.