Bjarni hafði komið inn á sem varamaður í leiknum, sem var gegn KFUM á mánudag, en Start lenti 2-1 undir og þannig var staðan þegar tíu mínútur voru eftir.
Start náði hins vegar að jafna metin og skora svo sigurmark á þriðju mínútu uppbótartíma.
Það var þá sem myndband náðist af Bjarna fagna markinu en hann virtist ekkert vita hvert hann átti að fara eða hvað hann átti að gera. Enda deildi Bjarni þessu skemmtilega myndbandi á Twitter með orðunum: „Get því miður ekki gefið neina góða útskýringu á þessu“.
Get því miður ekki gefið neina góða útskýringu á þessu https://t.co/V17GSeVDXN
— Bjarni Mark Duffield (@bjarnimark) October 7, 2022
Sigurinn kom Start upp fyrir KFUM í 3. sæti deildarinnar. Tvö efstu liðin komast upp í úrvalsdeild og liðin í 3.-6. sæti fara í umspil.
Bjarni og félagar eiga fyrir höndum afar mikilvægan leik næsta mánudag, í fjórðu síðustu umferðinni, þegar þeir mæta Stabæk sem er í 2. sæti. Fimm stigum munar núna á liðunum.
Bjarni, sem er 26 ára gamall, lék með KA og Fjarðabyggð hér á landi en hefur síðan spilað með Kristianstad og Brage í Svíþjóð, og nú Start í Noregi þar sem hann hefur skorað þrjú mörk í 20 leikjum á tímabilinu.
Hann á að baki tvo A-landsleiki, gegn El Salvador og Kanada í janúar 2020.