Konukot er neyðarskýlið fyrir heimilislausar konur á Íslandi en það er rekið af Rótinni. Undanfarin misseri hefur aðsóknin aukist mikið.
„Það er búin að aukast rosalega nýtingin. Það byrjaði í vor að það bara fylltist allt hérna í sumar og við erum bara ekki með rúm fyrir allar þessar konur. Þannig að já við erum bara að finna upp hjólið á hverjum degi og koma þeim fyrir,“ segir Halldóra Rannveig Guðmundsdóttir forstöðukona í Konukoti.
Þannig gista konurnar í sófa og stólum þegar þær eru hvað flestar.
„Húsnæðið er náttúrulega alveg sprungið utan af þessari starfsemi ef má segja sko. Við erum með tólf rúm í húsinu en við erum að fá kannski sautján átján konur,“ segir Kristín Pálsdóttir talskona og framkvæmdastjóri Rótarinnar.

Fyrstu níu mánuði þessa árs voru gistinæturnar tvö þúsund sjö hundruð fimmtíu og sjö.
„Núna fyrstu níu mánuði þessa árs þá voru jafn margar gistinætur í Konukoti og voru allt árið 2020,“ segir Kristín.
Sumar dvelja yfir þrjú hundruð daga á ári í Konukoti
Yngstu konurnar sem leita í Konukot eru átján ára en þær elstu komnar á áttræðisaldur. Halldóra segir hörkunum vera að aukast í þessum heimi og að skortur á búsetuúrræðum sé mikill. Dæmi sem um að konur leiti í Konukot flesta daga ársins og ár eftir ár þar sem engin önnur úrræði sé að finna.
„Það eru alveg konur sem hafa verið áratug til dæmis og meira og nýtingin er alveg yfir þrjú hundruð nætur á ári. Þannig að þær eru fastar hér,“ segir Halldóra.

Þá hafi staðan á húsnæðismarkaðnum hafa gert það að verkum að nýr hópur leitar í Konukot.
„Það eru að koma konur sem eru kannski ekki svona týpískar konur sem leita hingað. Eru kannski ekki með vímuefnavanda eða ekki sögu um heimilisleysi og ég held að stór partur af því sé húsnæðisvandinn. Það er bara mjög erfitt að fá íbúðir og herbergi á viðráðanlegu verði,“ segir Halldóra.
