Þrjár vikur eru liðnar síðan karlmennirnir tveir voru handteknir. Síðan þá hafa þeir sætt einangrun. Annar karlmannanna hafði losnað úr gæsluvarðhaldi og einangrun degi fyrr. Hann hefur því verið nær sleitulaust í einangrun í fjórar vikur.
Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá héraðssaksóknara, segir í samtali við Vísi að ekki verði gerð krafa um frekari einangrun. Þó verði krafist áframhaldandi gæsluvarðhalds. Sú krafa verði lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur síðdegis.
Karl Ingi vildi ekki upplýsa um hversu langs varðhalds yrði krafist yfir karlmönnunum tveimur. Það yrði fyrst upplýst í dómsal eftir hádegið.
Ómar Örn Bjarnþórsson, verjandi karlmannsins sem hefur verið í varðhaldi í nær fjórar vikur, telur að lagaskilyrðum fyrir áframhaldandi gæsluvarðhald sé ekki uppfyllt. Fallist héraðsdómur á kröfu héraðssaksóknara verði sá úrskurður kærður til Landsréttar.
Fram kom á dögunum að karlmennirnir tveir hefðu í samtölum sín á milli haft í flimtingum að bana sósíalistunum Gunnari Smára Egilssyni og Sólveigu Önnu Jónsdóttur. Þá komu nöfn þingmanna og fyrrverandi þingmanna Pírata upp í samtölum þeirra.
Viðkomandi hafa verið kölluð til skýrslutöku hjá héraðssaksóknara vegna málsins og upplýst um þessi mál. Áður hafði lögregla greint frá því að karlmennirnir hefðu rætt að fremja hryðjuverk á árshátíð lögreglumanna.
Hámarkslengd gæsluvarðhalds hér á landi án þess að búið sé að gefa út ákæru er tólf vikur.