Sport

Belgarnir komu jafnir í mark eftir að hafa hlaupið í 101 klukkutíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Belgarnir Merijn Geerts og Ivo Steyaert ræða hér við Laz Lake.
Belgarnir Merijn Geerts og Ivo Steyaert ræða hér við Laz Lake. Youtube

Keppni í heimsmeistarakeppni landsliða í bakgarðshlaupi er lokið og endaði með að tveir settu heimsmet.

Belgarnir Merijn Geerts og Ivo Steyaert eru báðir sigurvegarar einstaklinga í heimsmeistarakeppni landsliða í bakgarðshlaupum.

Þeir fengu leyfi frá stjóranum Laz Lake til að brjóta hefðirnar í bakgarðshlaupum með því að koma jafnir í mark eftir að hafa ellefu klukkutímum áður sett nýtt heimsmet. Gamla heimsmetið voru 90 klukkutímar.

Félagarnir hlupu í meira en 101 klukkutíma eða í fjóra sólarhringa og fimm klukkutímum betur.

Geerts átti sjálfur gamla heimsmetið þegar hann hljóp meira en 600 kílómetra fyrr á þessu ári en metið á HM landsliða var í eigu Belgans Karel Sabb sem hljóp í 75 klukkutíma árið 2020 og þá var Geerts að aðstoða hann.

Geerts og Steyaert voru einu hlaupararnir enn að hlaupa eftir 85 klukkutíma og þeir héldu áfram í sextán klukkutíma í viðbót.

Belgarnir hlupu saman síðustu hringina og ræddu málin. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að miðað við alla þá óeiningu og óvissu sem er í gangi í heiminum í dag þá vildu þeir sína jákvæðni og samstöðu með því að enda hlaupið jafnir.

Alls hlupu þeir meira en 677 kílómetra en það er mun lengra en að hlaupa frá Reykjavík og til Egilsstaða sem eru bara 633 kílómetrar.

544 keppendur frá 37 þjóðum hófu keppni á laugardagsmorguninn og félagarnir hlupu samfellt fram á eftirmiðdag á miðvikudegi.

Geerts og Steyaert voru í viðtali í Youtube útsendingunni eftir að þeir luku keppni. Þar voru þeir spurðir hvort þeir vildu segja eitthvað við þá sem voru að fylgjast með.

„Takk fyrir að horfa. Það er heilsusamlegt að stunda íþróttir en þú þarft samt ekki að hlaupa í hundrað klukkutíma. Það er nóg að hlaupa bara í einn klukkutíma,“ sagði Merijn Geerts.

„Það er mikil eymd í heiminum og ég tel að íþróttir geti gert heiminn betri. Ekki síst ofurhlaup vegna vináttunnar sem myndast þar á milli fólks,“ sagði Geerts.


Tengdar fréttir

„Fann að maður vildi ekki svíkja alla“

„Maður var alveg að bugast [eftir að hafa hlaupið í þrettán klukkutíma í myrkri] en maður veit að sólin kemur upp,“ sagði Þorleifur Þorleifsson, nýkrýndur Íslandsmeistari í bakgarðshlaupi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×