Erlent

Kjarnorkuárás Rússa yrði svarað af „bandalagi viljugra“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tobias Ellwood segir menn nú standa frammi fyrir því að þurfa að gera upp við sig hvernig þeir ætla að bregðast við ef Rússar nota kjarnorkuvopn.
Tobias Ellwood segir menn nú standa frammi fyrir því að þurfa að gera upp við sig hvernig þeir ætla að bregðast við ef Rússar nota kjarnorkuvopn. Getty/Leon Neal

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segir aðildarríki Nató munu bregðast við ef Rússar beita Svíþjóð eða Finnland einhvers konar þrýstingi eða ógnum áður en ríkin verða fullgild aðildarríki að bandalaginu.

Ummælin lét Stoltenberg falla á blaðamannafundi með nýjum forsætisráðherra Svíþjóðar, Ulf Kristersson. Sagði hann algjörlega óhugsandi að bandalagið myndi ekki grípa inn í ef Rússar ógnuðu Svíum eða Finnum.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, sagði í morgun að Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefði augljóslega gripið til þess ráðs að nota orkuskort og hungur sem vopn en honum hefði ekki tekist að splundra einingu Vesturlanda og myndi ekki ná hernaðartakmörkum sínum með því að skilja eftir sig sviðna jörð.

Í ræðu á þýska þinginu sagði kanslarinn að Þjóðverjum hefði tekist að gera sig óháða orku frá Rússlandi en unnið væri að því að ná orkuverði niður með því að tryggja gas frá öðrum ríkjum.

Tobias Ellwood, formaður varnarmálanefndar neðri deildar breska þingsins, sagði í viðtali við Sky News í morgun að menn stæðu nú frammi fyrir því að þurfa að gera það upp við sig hvernig þeir ætluðu að bregðast við ef Rússar notuðu kjarnorkuvopn. 

Það væri varla hægt að reiða sig á sameinuð viðbrögð Nató-ríkjanna, þar sem Tyrkir og Ungverjar myndu mótmæla en Rússum yrði svarað af „bandalagi viljugra“ ríkja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×