Fótbolti

Fulham upp í efri hlutann eftir öruggan sigur gegn tíu Villa-mönnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aleksandar Mitrovic skoraði annað mark Fulham í kvöld.
Aleksandar Mitrovic skoraði annað mark Fulham í kvöld. Justin Setterfield/Getty Images

Fulham vann öruggan 3-0 sigur er liðið tók á móti Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Gestirnir þurftu að leika seinasta hálftíman manni færri og staða Steven Gerrard sem stjóri liðsins er líklega í hættu.

Harrison Reed skoraði eina mark fyrri hálfleiksins þegar hann kom heimamönnum í Fulham í forystu þegar um tíu mínútur voru eftir af hálfleiknum og staðan því 1-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Gestirnir komu sér svo í vandræði á 62. mínútu þegar Douglas Luiz fékk að líta beint rautt spjald og ekki batnaði staðan þegar Aleksandar Mitrovic kom heimamönnum í 2-0 með marki af vítapunktinum.

Heimamenn í Fulham gerðu svo endanlega út um leikinn þegar Tyrone Mings varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net þegar um fimm mínútur voru til leiksloka.

Niðurstaðan því öruggur 3-0 sigur Fulham og liðið er nú með 15 stig í níunda sæti deildarinnar eftir 11 leiki. Aston Villa situr hins vegar í 17. sæti deildarinnar með níu stig og það eina sem bjargar liðinu frá því að sitja í fallsæti er markatalan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×