Fótbolti

Aston Villa vann stórsigur í fyrsta leiknum án Gerrard og Refirnir völtuðu yfir Úlfana

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aston Villa vann öruggan sigur í dag.
Aston Villa vann öruggan sigur í dag. Catherine Ivill/Getty Images

Aston Villa vann öruggan 4-0 sigur í dag er liðið tók á móti Brentford í sínum fyrsta leik eftir að félagið lét Steven Gerrard fara frá félaginu. Þá vann Leicester einnig 0-4 sigur er liðið heimsótti Wolves, en sigurinn lyfti liðinu upp úr fallsæti.

Leon Bailey kom Aston Villa yfir gegn Brentford strax á annarri mínútu leiksins og fimm mínútum síðar var staðan orðin 2-0 eftir að áðurnefndur Bailey lagði upp mark fyrir Danny Ings.

Ings var svo aftur á ferðinni á 14. mínútu þegar hann skoraði af vítapunktinum og staðan orðin 3-0 áður en stundarfjórðungur var liðinn af leiknum.

Þannig var staðan í hálfleik, een Ollie Watkins skoraði fjórða mark heimamanna eftir um klukkutíma leik og niðurstaðan því öruggur 4-0 sigur Aston Villa sem situr nú í 14. sæti deildarinnar með 12 stig, tveimur stigum minna en Brentford sem situr í tíunda sæti.

Þá vann Leicester einnig öruggan 0-4 sigur er liðið heimsótti Wolves á sama tíma. Youri Tielemans og Harvey Barnes sáu um markaskorunina í fyrri hálfleik áður en James Maddison og Jamie Vardy bættu sínu markinu hvor við í þeim síðari.

Sigurinn lyftir Leicester upp af botni deildarinnar og upp í 16. sæti með 11 stig, en Wolves situr hins vegar í næst neðsta sæti með aðeins níu stig.

Að lokum vann Fulham 2-3 sigur gegn Leeds þar sem Aleksandar Mitrovic jafnaði metin fyrir Fulham í fyrri hálfleik eftir að Rodrigo Moreno hafði komið Leeds yfir eftir tuttugu mínútna leik.

Bobby Reid og Willian sáu svo um markaskorun gestanna í síðari hálfleik áður en Crysencio Summerville klóraði í bakkann fyrir heimamenn í uppbótartíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×