Skoðun

Vissuð þið þetta?

Sandra B. Franks skrifar

Vissu þið, að konur eru um 50% Íslendinga? Vissu þið að um 90% þeirra sem stjórna kauphallarfyrirtækjum, fjármálafyrirtækjum, lífeyrissjóðum, orkufyrirtækjum og lánasjóða á Íslandi eru karlar? Vissu þið að um 75% stjórnarmanna í íslenskum fyrirtækjum eru karlar?

Vissu þið, að atvinnuþátttaka íslenskra kvenna er með því mesta sem þekkist í heiminum? Vissu þið, að ein af meginástæðum þess að Ísland er tíunda ríkasta land í heimi er einmitt þessi mikla atvinnuþátttaka kvenna?

Vissu þið, að konur fá lægri laun en karlar fyrir sömu vinnu? Vissu þið, að samkvæmt lögum og stjórnarskrá á að borga sömu laun fyrir sömu vinnu? Vissu þið, að störf sem eru helst unnin af konum eru með lægri laun en hefðbundin karlastörf?

Já, auðvitað vitið þið þetta allt saman.

En kannski vitið þið ekki að nýleg rannsókn frá Harvard sýnir að launahækkun til kvenna eykur framleiðni meira en launahækkun til karla. Og kannski vitið þið ekki heldur að með því að minnka kynbundinn launamun eykst framleiðni vinnuafls. Og kannski vitið þið ekki heldur að framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagði nýverið að ójöfn staða kvenna og karla dregur úr hagvexti.

Fyrst þetta liggur svona, er ekki lag að láta næstu kjarasamninga snúast svolítið um konur? Kvenna-kjarasamningar hljómar vel. Það er bæði réttlátt og hagfræðilega skynsamlegt. Win-win fyrir alla!

Til hamingju með kvenna-frídaginn!

Höfundur er formaður Sjúkraliðafélags Íslands þar sem 97% félagsmanna eru konur.




Skoðun

Sjá meira


×