Ten Hag setti Ronaldo í bann frá æfingum með aðalliði United eftir 2-0 sigurinn gegn Tottenham síðasta miðvikudag. Ronaldo hafði þá neitað að koma inn á í leiknum og strunsað í burtu áður en leiknum lauk.
Þeir hafa nú fundað saman og sneri Ronaldo aftur til æfinga í gær, til undirbúnings fyrir leikinn gegn Sheriff í Evrópudeildinni á Old Trafford annað kvöld.
Ten Hag sagði að Ronaldo yrði í leikmannahópnum á morgun en vildi að öðru leyti sem minnst tjá sig um málið á blaðamannafundinum í dag.
„Þetta er ekki erfitt. Við sögðum það sem þurfti að segja, svöruðum öllum spurningum. Hann var í burtu í einn leik en er nú kominn aftur í hópinn eins og venjulega,“ sagði Ten Hag.
Varane ekki með fyrr en eftir HM
Knattspyrnustjórinn staðfesti hins vegar að franski miðvörðurinn Raphael Varane myndi ekki spila meira með United fyrr en eftir að heimsmeistaramótinu lýkur í desember.
Varane fór meiddur af velli eftir klukkutíma leik í 1-1 jafnteflinu við Chelsea á sunnudaginn.