Joe Biden Bandaríkjaforseti segir olíufélögin lítið hafa fjárfest í bandarísku samfélagi og ekki aukið framleiðslu sína til að koma til móts við áhrif stríðsins í Úkraínu á olíuútflutning frá Rússlandi. Á sama tíma hafi almenningur í landinu lagt sitt af mörkum.
„Olíuiðnaðurinn hefur ekki staðið við loforð sín um að fjárfesta í Bandaríkjunum og styðja bandarísku þjóðina. Eitt af öðru hafa stóru olíufélögin tilkynnt methagnað,“ segir Biden.

Þannig hefði Shell greint frá 9,5 milljarða hagnaði á þriðja ársfjórðungi þessa árs sem væri næstum tvöfalt meiri hagnaður en í fyrra. Exxon hefði síðan bætt um betur með 18,7 milljörðum dollara hagnaði.
„Næstum þrisvar sinnum meira en Exxon hagnaðist á síðasta ári og það mesta í 152 ára sögu félagsins. Það hefur aldrei hagnast svona mikið,“ sagði forsetinn.
Á síðustu sex mánuðum hafi sex stærstu olíufélögin hagnast um rúma 100 milljarða dollara. Sjálfur sagðist Biden vera kapitalisti en þetta væri út í hött.

„Mér finnst þessi hagnaður svívirðilegur. Í stað þess að auka fjárfestingar sínar í Bandaríkjunum eða að gefa bandarískum neytendum tækifæri rennur þessi umframhagnaður til hluthafanna og til að kaupa aftur hlutabréf þeirra og laun yfirmannanna munu rjúka upp úr öllu valdi. Hættið þessu. Nú er nóg komið,“ sagði forsetinn.
Þessi mikli hagnaður væri ekki til kominn vegna góðra fjárfestinga og framsýni olíufélaganna heldur vegna þjáninga tuga milljóna manna vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Þeim bæri skylda til að huga að hagsmunum almennings viðþessar aðstæður.
„Ef þeir gera það ekki munu þeir borga hærri skatt af þessum mikla hagnaði og standa frammi fyrir öðrum takmörkunum. Það er kominn tími til að þessi fyrirtæki hætti að græða á stríðinu, axli ábyrgð sína í þessu landi, gefi bandarísku þjóðinni tækifæri en hagnist samt mjög vel,“ sagði Joe Biden.