Handbolti

„Það er ótrúlegt hvernig hann nær þessu“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson var frábær í Valsmarkinu í gær.
Björgvin Páll Gústavsson var frábær í Valsmarkinu í gær. Vísir/Hulda Margrét

Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik á Benidorm í gærkvöldi þegar Valsmenn héldu sigurgöngu sinni áfram í Evrópudeildinni.

Íslenski landsliðsmarkvörðurinn tók hvert dauðafærið á fætur öðru, varði tvö víti og átti sína eina af ótrúlegustu markvörslu í manna minnum.

Sérfræðingar Seinni bylgjunnar fóru yfir frammistöðu Björgvins eftir leikinn og hann fékk mikið hrós frá þeim.

„Björgvin Páll Gústavsson var virkilega góður í þessum leik og varði sextán bolta. Hann er með rétt undir fjörutíu prósent markvörslu. Svo var hann að verja úr dauðafærum,“ sagði Stefán Árni Pálsson.

Klippa: Umræða um frammistöðu Björgvin Páls á Benidorm

„Hann byrjaði leikinn strax á að verja bolta. Hann fær einn bolta í hausinn sem gerir hann bara ruglaðri í markinu en hann var fyrir,“ sagði Þorgrímur Smári Ólafsson.

„Þannig kveikir maður á honum,“ skaut Stefán Árni inn í.

„Ég er að segja það. Hann var mjög góður og er lykillinn að þessum sigri hjá Valsmönnum,“ sagði Þorgrímur Smári.

„Ég tek alveg undir það. Þetta eru nánast allt dauðafæri því Benidorm spilar upp á það að fá sex metra færi. Þeir eru ekki að skjóta mikið fyrir utan. Hann tekur þarna tvö víti í röð og á síðan ótrúlega markvörslu þegar hann skutlar sér á eftir boltanum,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson.

„Það er svo mikilvægt fyrir hann þegar hann byrjar leiki vel því það gefur sjálfstraust í liðið,“ sagði Jóhann Gunnar.

Þeir sýndu síðan markvörslu Björgvins þegar hann skutlar sér á eftir boltanum og nær að koma í veg fyrir að boltinn færi yfir marklínuna.

„Þessi varsla er rugl. Það er ótrúlegt hvernig hann nær þessu,“ sagði Jóhann.

Það má horfa á umræðuna um Björgvin Pál og allar flottu markvörslurnar hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×