Körfubolti

Bosh fékk síðustu 64 milljóna krónu greiðsluna frá Miami Heat í þessari viku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Bosh kvaddi NBA-deildina árið 2017 en hélt áfram að fá veglega borgað í fimm ár.
Chris Bosh kvaddi NBA-deildina árið 2017 en hélt áfram að fá veglega borgað í fimm ár. Mynd/AP

Chris Bosh lék sinn síðasta leik með NBA liði Miami Heat í febrúar 2016 en félagið var enn að borga honum þar til á þriðjudaginn var.

Bosh varð að leggja skóna á hilluna vegna heilsubrest árið 2017 og gerði þá starfslokasamning við Miami Heat.

Heat samþykkti að borga upp samninginn hans með því að borga honum rúma 434 þúsund Bandaríkjadali tvisvar í mánuði. Bosh var því búinn að fá tvær 64 milljón króna útborganir í hverjum mánuði undanfarin fimm ár.

Síðasta útborgunin var í þessari viku og Miami hefur nú borgað upp þær 52 milljónir dollara sem Bosh átti inni samkvæmt samningi sínum.

Ferill Bosh endaði snögglega þegar það fannst blóðtappi í fæti hans. Hann reyndi að koma aftur en það gekk ekki.

Fyrsta greiðslan var 15. nóvember 2017 og alls fékk hann þessar 64 milljónir króna útborgaðar 120 sinnum.

Bosh varð tvisvar sinnum NBA meistari með Miami Heat en hann myndaði þríeykið öfluga með LeBron James og Dwyane Wade.

Chris Bosh lék 384 leiki á sex tímabilum með Miami Heat eftir að hafa leikið sjö fyrstu tímabilin sín með Toronto Raptors.

Með Miami Heat var hann með 18,0 stig og 7,3 fráköst að meðaltali í leik en hafði skorað 20,2 stig og tekið 9,4 fráköst í leik í 509 leikjum með Toronto.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×