Gestirnir frá Burnley byrjuðu betur í dag og Manuel Benseon kom þeim í tvígang yfir í fyrri hálfleiknum. Í millitíðinni jafnaði Iliman Ndiaye fyrir Sheffield United og staðan í hálfleik 2-1 fyrir Burnley.
Strax í upphafi síðari hálfleiks jafnaði Ollie McBurnie fyrir Sheffield United og leikmenn greinilega í markastuði á Bramall Lane.
Jóhann Berg kom inn á 58.mínútu og það er óhætt að segja að í kjölfarið á því hafi allt farið í skrúfuna hjá Burnley. Sheffield United skoraði þrjú mörk á tíu mínútna kafla og skyndilega var staðan orðin 5-2 þeim í vil.
Það urðu líka lokatölur leiksins. Með sigrinum minnkaði Sheffield United forskot Burnley á toppnum niður í þrjú stig en áður en kom að tapinu í dag voru Burnley ósigraðir í sextán leikjum.