Fyrst í dag mæta þeir saman blaðamennirnir, rithöfundarnir og heimshornaflakkararnir Valur Gunnarsson og Þórir Guðmundsson. Báðir með nýja og áhugaverða bók í fararteskinu en líka mikla reynslu af því að leggja mat á stöðuna í fjarlægum heimshlutum.
Svo koma þau Hildur Sverrisdóttir alþingismaður og Vigfús Bjarni Albertsson prestur - umræðuefnið er formannskjörið á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, Hildur styður Bjarna en Vigfús vill sjá breytingar og styður Guðlaug - spennan á fundinum er rafmögnuð, reynum að fanga hana.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson hefur á sinni könnu málefni innflytjenda, aðlögun þeirra og stefnumótun í þessum gríðarlega viðkvæma málaflokki sem hefur valdið svo mikilli ólgu víða í Vesturheimi. Hver er eiginlega stefna ríkisstjórnarinnar og hversu opin eiga landamærin að vera, getum við tekið við öllu því fólki sem hingað leitar án vandræða?
Í lok þáttar ræða þær Hildur Björnsdóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir rekstur Reykjavíkurborgar sem hefur oft litið betur út. Hvernig vinnur stærsta sveitarfélagið sig út úr þessum mikla hallarekstri án þess að skera niður mikilvæga samfélagsþjónustu.