Handbolti

„Eru að hugsa um sjálfa sig eða einhverja tölfræði eða blablablablabla“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnari Daða Arnarssyni lá mikið á hjarta í Seinni bylgjunni í gær.
Arnari Daða Arnarssyni lá mikið á hjarta í Seinni bylgjunni í gær. stöð 2 sport

Arnar Daði Arnarsson hélt mikla eldræðu um lið Stjörnunnar í Seinni bylgjunni í gær. Stjörnumenn unnu ÍR-inga, 33-28, á sunnudagskvöldið. Sigurinn var þó tæpari en í stefndi í hálfleik.

Eftir að hafa verið með ellefu marka forskot í hálfleik og góða forystu framan af seinni hálfleik hleypti Stjarnan ÍR inn í leikinn, ekki ósvipað og liðið gerði gegn KA á fimmtudaginn.

„Þeir eru alltof óagaðir í sókninni. Þeir taka alltof mikið af fáránlegum ákvörðunum, Pétur Árni [Hauksson], Hergeir [Grímsson], Tandri [Már Konráðsson] og fleiri. Á sama tíma og þetta gerist hríðfellur varnarleikurinn. Þetta er það sem maður talar um við krakka í 4. flokki; ef það gengur illa í sókninni verður vörnin að halda og öfugt. Bæði gegn ÍR og KA hríðfellur bæði í seinni hálfleik,“ sagði Arnar Daði.

Klippa: Seinni bylgjan - Umræða um Stjörnuna

Stefáni Árna Pálssyni finnst skortur á karakter einkenna leik Stjörnumanna. Arnar Daði tekur ekki í sama streng.

„Þú segir karaktersleysi. Ég ætla að svara því aðeins. Ég er ekki alveg sammála því. Stjarnan komst í 6-1 gegn KA og voru ellefu mörkum yfir gegn ÍR. Það er karakter að vera ekki með vanmat. Þeir eru frábærir í báðum þessum leikjum gegn KA og ÍR en hvað svo,“ sagði Arnar Daði sem vildi frekar tala um agaleysi en karaktersleysi.

„Leikmenn kunna ekki eða vilja ekki vera á þessum augnablikum eða eru að hugsa um sjálfa sig eða einhverja tölfræði eða blablablablabla. Þú átt að elska að vera 7-11 mörkum yfir.“

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×