Þetta kemur fram í stuttri en sameiginlegri yfirlýsingu embættis Ríkislögreglustjóra og Isavia. Þar segir að fulltrúar embættisins og Isavia hafi fundað í dag til að fara yfir framkvæmd umræddra aðgerða í síðustu viku.
Fimmtán hælisleitendur voru sendir með flugvél til Grikklands þann 3. nóvember, þar á meðal fatlaður hælisleitandi frá Írak. Á Keflavíkurflugvelli var flóðljósum beitt gegn blaðamönnum til að hindra fréttaflutning af málinu.
Isavia hefur áður gefið út yfirlýsingu þar sem það harmaði atvikið en vísaði í að starfsfólk fyrirtækisins hafi verið að fylgja fyrirmælum lögreglu.
Í yfirlýsingunni nú er ítrekað að lögregla hafi stjórn á framkvæmd slíkra aðgerða. Mikilvægt sé að gott og skýrt samstarf sé á milli lögreglu og starfsfólks á flugvellinum.
„Það var aldrei ætlun aðila að hefta störf fjölmiðla með nokkrum hætti. Við yfirferð á framkvæmd aðgerðarinnar kom hins vegar í ljós að tilmæli voru ekki nægilega skýr og harma báðir aðilar að svo hafi verið. Ákveðið var á fundi fulltrúa embættis Ríkislögreglustjóra og Isavia í dag að taka ferli og verklag í aðgerðum af þessu tagi til gagngerrar endurskoðunar til að fyrirbyggja óskýrleika á vettvangi. Sú vinna mun hefjast nú þegar,“ segir í yfirlýsingunni.
Blaðamannafélag Íslands gagnrýndi háttsemi starfsmanna Isavia harðlega í síðustu viku og krafði ríkislögreglustjóra og Isavia um svör vegna málsins. Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, og fulltrúi hennar mun funda með félagsmönnum Blaðamannafélags Íslands á morgun vegna málsins.