Í þættinum í gærkvöldi var rætt við hundaeigendur sem leggja mikið á sig til að koma hundum sínum í gegnum hundasýningar. Gríðarlegur tími fer í áhugamálið og þarf að baða, greiða og kemba hundana í hverri viku sem tekur allt upp í tvær klukkustundir á hvern hund. Einn viðmælandinn átti til að mynda fimm hunda og fara 10 klukkustundir í viku í það að halda hundunum glæsilegum.
„Sama hvar þú ert í lífinu og hvort þú sért dapur eða glaður, þá er hundurinn alltaf með þér. Hann dregur þig út, kúrir hjá þér eða liggur hjá þér eða situr hjá þér. Sama hvernig þú ert, ef þú ert til dæmis veikur þá skynjar hundurinn það og að eiga einhvern svoleiðis er allt of dýrmætt,“ segir Sigríður Margrét Jónsdóttir sem á einmitt fimm hunda.
„Ég held að mér hafi aldrei liðið jafn illa og þegar ég missti hann. Sumir hundar eru bara eins og sálufélagar manns. En góðu tímarnir eru svo miklu fleiri en þessi slæmi þegar þeir fara frá manni. Ég mæli með þessu fyrir alla,“ segir Anna Dís Arnarsdóttir, sem rekur hundaræktunina Mystic Glow ásamt systur sinni.