Handbolti

Viggó fór á kostum í fyrsta leik Rúnars | Gummersbach hafði betur í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viggó Kristjánsson var öflugur í liði Leipzig í kvöld.
Viggó Kristjánsson var öflugur í liði Leipzig í kvöld. EPA-EFE/Khaled Elfiqi

Nýliðar Gummersbach, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar og með þá Elliða Snæ Vignisson og Hákon Daða Styrmisson innanborðs, unnu virkilega sterkan tveggja marka sigur er liðið tók á móti Teiti Erni Einarssyni og félögum hans í Flensburg í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld, 31-29. Þá fór Viggó Kristjánsson á kostum er Leipzig vann nauman eins marks sigur gegn Wetzlar í fyrsta leik liðsins undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik, en gestirnir í Flensburg náðu þó mest þriggja marka forskoti í tvígang áður en flautað var til hálfleiks. Staðan þegar liðin gengu til búningsherbergja var 13-15, Flensburg í vil.

Gestirnir höfðu yfirhöndina lengst af í síðari hálfleiknum, en í stöðunni 21-24 skoruðu heimamenn fjögur mörk í röð og náðu forystunni í fyrsta skipti síðan um miðbik fyrri hálfleiksins.

Heimamenn í Gumemrsbach létu forskotið aldrei af hendi eftir það og unnu að lokum virkilega sterkan tveggja marka sigur, 31-29. Ellið Snær Viðarsson skoraði fjögur mörk fyrir heimamenn og Hákon Daði Styrmisson tvö. Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú mörk fyrir gestina.

Gummersbach situr nú í áttunda sæti deildarinnar með 13 stig eftir 11 leiki, tveimur stigum á eftir Flensburg sem situr í fimmta sæti.

Þá fór Viggó Kristjánsson algjörlega á kostum er Leipzig vann nauman sigur gegn Wetzlar á sama tíma, 25-24. Leikurinn var fyrsti leikur Leipzig undir stjórn Rúnars Kristinssonar, en Viggó skoraði tíu mörk fyrir gestina og var markahæsti maður vallarins.

Að lokum vann HC ERlangen öruggan sex marka sigur gegn Hamburg, 35-29, en Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×