Fótbolti

Þrumufleygur Willocks skaut Newcastle upp í þriðja sæti fyrir HM-pásuna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Joe Willock skoraði eina mark leiksins er Newcastle lagði Chelsea.
Joe Willock skoraði eina mark leiksins er Newcastle lagði Chelsea. Stu Forster/Getty Images

Joe Willock skoraði eina mark leiksins er Newcastle vann sterkan 1-0 sigur gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Leikurinn var nokkuð jafn frá upphafi til enda, en það voru þó heimamenn í Newcastle sem virtust líklegri til að brjóta ísinn.

Ekki gekk það í fyrri hálfleik og liðin gengu því inn til búningsherbergja í stöðunni 0-0.

Það var ekki fyrr en að rétt rúmar tuttugu mínútur voru til leiksloka að það dró loks til tíðinda. Miguel Almiron fékk þá boltann úti á hægri kannti og keyrði inn á völlinn áður en Joe Willock birtist upp úr þurru og þrumaði boltanum nánast af tánum á liðsfélaga sínum og upp í bláhornið fjær.

Þetta reyndist eina mark leiksins og niðurstaðan því 1-0 sigur Newcastle sem hefur nú unnið fimm deildarleiki í röð. Newcastle lyfti sér upp í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sigrinum og verður þar þegar heimsmeistaramótið hefst í næstu viku. Liðið er með 30 stig eftir 15 leiki, níu stigum meira en Chelsea sem situr í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×