Ronaldo hefur eignað sér ófáar fyrirsagnir íþróttafréttamiðla undanfarna daga eftir að hlutar úr viðtali hans við Piers Morgan fóru að birtast. Morgan hefur verið duglegur að birta brot úr viðtalinu undanfarna daga og það fer svo í heild sinni í loftið í tveimur hlutum í kvöld og á morgun.
Í viðtalinu segist þessi 37 ára leikmaður Manchester United meðal annars ekki bera neina virðingu fyrir þjálfara félagsins, Erik ten Hag. Hann segir að honum finnist félagið hafa svikið sig, háttsettir menn innan þess hafi reynt að bola sér út og að almennt hafi engar framfarir orðið hjá liðinu síðan Sir Alex Ferguson yfirgaf félagið árið 2013.
Í kjölfarið hafa borist fregnir af því að forráðamenn United skoði þann möguleika að rifta samningi leikmannsins og þá herma heimildir að Ten Hag ætli að sjá til þess að Ronaldo muni aldrei aftur spila fyrir Manchester United.
Eins og gefur að skilja hefur Ronaldo verið harðlega gagnrýndur eftir viðtalið umdeilda. Hann á þó enn sitt stuðningsfólk og þar á meðal eru fjölskyldumeðlimir hans.
Katia Aveiro, systir knattspyrnumannsins, er meðal þeirra sem hefur komið honum til varnar. Hún segir meðal annars að það myndi ekki skipta máli þótt Ronaldo myndi eyða restinni af ferlinum sínum í að klóra sér í pungnum, það myndi ekki hafa áhrif á arfleifðina sem hann mun skilja eftir sig.
„Þú þarft ekki að sanna neitt. Þú hefur byggt upp stórveldi úr engu og þú skilur eftir þig arfleifð fyrir næstu kynslóð sem enginn getur tekið frá þér,“ skrifaði Aveiro meðal annars á Instagram.
„Þú gætir klórað þér í pungnum og flautað á meðan þú situr í einkaþotunni þinni á leið hvert sem er, eða farið á 27 metra langa bátnum þínum og notið lífsins í hvaða landi sem er.“
„Allt sem þú hefur áorkað og unnið er þitt og aðeins þitt. Þú gætir og þú getur gert allt sem þú vilt, en enn og aftur ákveður þú að vera öðruvísi og hugrakkur,“ skrifaði Aveiro.