Handbolti

Óðinn atkvæðamikill þegar Kadetten Schaffhausen gerði jafntefli

Smári Jökull Jónsson skrifar
Óðinn Þór í leik með íslenska landsliðinu.
Óðinn Þór í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Eyþór

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sex mörk fyrir Kadetten Schaffhausen sem gerði jafntefli við Pfadi Winterthur í svissneska handboltanum í kvöld. Schaffhausen er í efsta sæti deildarinnar.

Fyrir leikinn í kvöld voru liðin í efsta og þriðja sæti deildarinnar og því var búist við hörkuleik. Jafnt var á með liðunum í upphafi en Pfadi náði áhlaupi undir lok fyrri hálfleiks og leiddi 19-15 í hálfleik.

Heimaliðið hélt frumkvæði sínu í upphafi síðari hálfleiks en Schaffhausen minnkaði muninn jafnt og þétt þegar á leið. Þeim tókst að jafna metin í 26-26 þegar rúmar tíu mínútur voru eftir og eftir það munaði aldrei meiru en tveimur mörkum á liðunum.

Óðinn Þór kom sínum mönnum einu marki yfir í stöðunni 31-30 þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir en fékk síðan tveggja mínútna brottvísun í stöðunni 32-31 fyrir Schaffhausen með tæpa mínútu eftir á klukkunni. Þann tíma nýtti heimaliðið sér til að jafna metin og liðin skildu jöfn, lokatölur 32-32.

Óðinn skoraði eins og áður segir sex mörk í leiknum í kvöld og þar af eitt úr vítakasti. Schaffhausen er í efsta sæti deildarinnar en hefur leikið fleiri leiki en liðin sem fylgja í kjölfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×