Um var að ræða húsleitir í stjórnstöð „ofur-fíkniefnahrings“ og aðgerðir gegn innviðum glæpasamtakanna, sem eru talin hafa stjórnað um þriðjungi allra kókaínviðskipta í Evrópu.
Samkvæmt tilkynningu frá Europol nær rannsóknin nokkur ár aftur í tímann en aðgerðirnar í nóvember náðu til Spánar, Frakklands og Belgíu, auk Sameinuðu arabísku furstadæmanna.
Þær báru yfirskriftina „Eyðimerkurljós“.
Þrettán voru handteknir á Spáni, sex í Frakklandi, tíu í Belgíu og sex í Dúbaí. Þá voru fjórtán handteknir í Hollandi í fyrra.
Við rannsókn málsins var lagt hald á alls 30 tonn af kókaíni.
Í tilkynningu Europol er auknu samstarfi við Sameinuðu arabísku furstadæmin fagnað. Þar segir að samningur hafi meðal annars verið undirritaður um dvöl samskiptafulltrúa Sameinuðu arabísku furstadæmanna við höfuðstöðvar Europol í Hollandi.