Kristján hefur glímt við meiðsli ökkla að undanförnu og misst af síðustu leikjum PAUC vegna þeirra.
„Ég er búinn að vera að glíma við smá meiðsli í ökkla. Ég fór í myndatöku og það kom í ljós smá rifa í einum vöðva í ökklanum og smá trosnun á liðbandi,“ sagði Kristján við íþróttadeild í dag.
„Þetta eru minniháttar meiðsli. Vonandi næ ég að spila á morgun en held að það verði ekki að veruleika, við sjáum til. Ég er byrjaður að hlaupa og stefni á leik á föstudaginn. Það er svona í síðasta lagi fyrir mig, fyrsta lagi væri auðvitað gegn Völsurum, það er æfing á eftir og við sjáum til hvernig ég verð þá.“
Kristján skoraði samtals tíu mörk í fyrstu tveimur leikjum PAUC í Evrópudeildinni en missti af síðasta leik, 33-30 sigri á Ferencváros.
Leikur PAUC og Vals hefst klukkan 19:45 annað kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.