Kóralrifið mikla undan norðausturströnd Ástralíu er stærsta kóralrif í heimi. Það þekur um 348.000 ferkílómetra og samanstendur af fleiri en 2.500 einstökum rifjum. Svo stórt er það að það er sýnilegt frá braut um jörðu. Það hefur verið á heimsminjaskrá frá 1981.
Hnattræn hlýnun og súrnun sjávar ógna heilsu rifsins en kóralar eru afar viðkvæmir fyrir sveiflum í sjávarhita og sýrustigi. Við hitaálag losa kóralarnir þörunga sem þeir lifa samlífi við og fölna. Meira en 90% rifsins reyndist fölnað í rannsókn ástralskra vísindamanna í vor.
Í skýrslu sérfræðinga UNESCO og Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna sem var birt í gær kom fram að áströlsk stjórnvöld yrðu að draga hraðar úr losun gróðurhúsalofttegunda. Mælti höfundar hennar með því að rifið yrði sett á lista yfir heimsminjar í hættu.
Tanya Plibersek, umhverfisráðherra Ástralíu, segir gagnrýni skýrsluhöfunda á loftslagsmarkmið landsins úrelt eftir að stjórnarskipti urðu eftir kosningar í maí. Ný miðvinstristjórn Verkamannaflokksins hafi þegar brugðist við helstu athugasemdum sem vakið er máls á í skýrslunni.
„Við ætlum að gera UNESCO klárlega grein fyrir því að það sé engin þörf á að taka Kóralrifið mikla svona fyrir sérstaklega,“ sagði hún við fréttamenn, að sögn AP-fréttastofunnar.
„Ef þessar heimsminjar eru í hættu þá eru flestar heimsminjar í heiminum í hættu vegna loftslagsbreytinga,“ fullyrti ráðherrann.

Eru ekki að gera allt sem þau geta
Athugasemdir ástralskra stjórnvalda verða teknar til skoðunar áður en heimsminjanefnd UNESCO tekur afstöðu til stöðu rifsins. Fyrri ríkisstjórn íhaldsmanna tókst að fresta slíkri ákvörðun í fyrra.
Stjórn Verkamannaflokksins stefnir á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 26-28% fyrir lok þessa áratugs. Jodie Rummer, sjávarlíffræðingur við James Cook-háskóla í Ástralíu, segir að Ástralir verði að grípa til hraðari og róttækari aðgerða.
„Við getum ekki haldið því fram að við séum að geta allt sem við getum fyrir rifið. Við erum ekki að því. Við þurfum að senda heiminum þau skilaboð að við séum að gera allt sem við mögulega getum fyrir rifið og það þýðir að við verðum að grípa til tafarlausra aðgerða vegna losunar,“ segir hún.