Landshringurinn slitnaði á milli Hafnar í Hornafirði og Holts á Mýrum í gærkvöldi. Viðgerðateymi var sent á staðinn en ekki var unnt að byrja á viðgerðinni strax. Í tilkynningu á vef Mílu kemur fram að strengurinn hafi slitnað í Djúpá og að aðstæður séu mjög erfiðar.
Sigurrós Jónsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri Mílu, segir slitið hafa mest áhrif á farsímadreifingu á svæðinu þar sem það varð. Landshringurinn virkar hins vegar þannig að ef hann fer í sundur á einum stað beinist umferð lengri leiðina. Þannig ætti netsamband að haldast þó að það kunni að hægjast á því.
Vatnavextir í Djúpá eru líklegasta ástæðan fyrir því að strengurinn fór í sundur. Sigurrós segir viðgerðarteymi á staðnum en það bíði aðeins eftir því að það verði nógu bjart til að hefja störf. Fyrst verði ráðist í bráðabirgðaviðgerð þar sem streng verður komið yfir ána.
Hún varar við því að viðgerðin gæti tekið sinn tíma í ljósi aðstæðna.
„Það mun taka svolítinn tíma að koma þessu í loftið aftur. Ég bara vona að það gerist í dag,“ segir hún.
Uppfært 11:10 Viðgerð er nú lokið á landshringnum, samkvæmt tilkynningu Mílu sem var send nú rétt eftir klukkan ellefu.