Handbolti

Teitur og félagar einir á toppnum eftir sigur gegn Benidorm

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg unnu öruggan sigur í kvöld.
Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg unnu öruggan sigur í kvöld. Frank Molter/picture alliance via Getty Images

Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg gerðu góða ferð til Benidorm þar sem liðið vann öruggan sex marka sigur gegn heimamönnum í Evrópudeildinni í handbolta, 32-38. Fyrr í kvöld máttu Kristján Örn Kristjánsson og félagar hans í PAUC þola óvænt tap gegn sænska liðinu Ystads í sama riðli, 34-36.

Báðir þessir leikir voru hluti af B-riðli Evrópudeildarinnar, sama riðli og Valsmenn leika í. Valsmenn voru einnig í eldlínunni í kvöld þar sem liðið gerði jafntefli gegn ungverska liðinu Ferencváros.

Eftir tap gegn sænska liðinu Ystads í seinustu umferð þurftu Teitur Örn og félagar á sigri að halda til að halda toppsætinu í riðlinum. Það var ekki verra fyrir þýska liðið að vita að Ystads vann einnig sigur gegn PAUC fyrr í kvöld sem þýddi að Flensburg gat komið sér eitt á topp riðilsins með því að krækja í það minnsta í stig gegn Benidorm.

Flensburg gerði gott betur en það og vann sannfærandi sex marka sigur, 32-38. Þýska liðið trónir nú eitt á toppi riðilsins með átta stig eftir fimm umferðir, tveimur stigum meira en PAUC og Ystads sem sitja í öðru og þriðja sæti. Valsmenn sitja hins vegar í fjórða sæti með fimm stig.

Þá skoraði Óðinn Þór Ríkharðsson þrjú mörk fyrir Kadetten Schaffhausen er liðið vann nauman eins marks sigur gegn Göppingen í A-riðli, 24-25. Þetta var fjórði sigur Kadetten í röð í Evrópudeildinni og liðið situr í öðru sæti riðilsins með átta stig.

Að lokum náði íslendingalið Alpla Hard í sitt fyrsta stig í riðlakeppninni er liðið gerði jafntefli gegn Balatonfuredi, 30-30. Sigtryggur Daði Rúnarsson komst ekki á blað fyrir liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×