Körfubolti

„Þetta er algjör einhyrningur í þessari deild“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Ólafsson er Grindavíkurliðinu gríðarlega mikilvægur.
Ólafur Ólafsson er Grindavíkurliðinu gríðarlega mikilvægur. Vísir/Ingibergur Þór Jónasson

Ólafur Ólafsson átti stórleik með Grindvíkingum í sigurleik á útivelli á móti Haukum í tíundu umferð Subway deildar karla.

Ólafur skoraði 32 stig og setti niður átta þriggja stiga körfur. Hann var eini stigi frá sínu persónulega stigameti og sett nýtt persónulegt met í þristum.

Ólafur er aðeins níundi Grindvíkingurinn til að ná átta þrista leik og annar í fjölskyldunni. Þorleifur Ólafsson, eldri bróðir hans, hafði líka náð þessu en flesta átta þrista leiki fyrir Grindavík á Páll Axel Vilbergsson eða tólf.

Frammistaða Ólafs var tekin fyrir í Subway Körfuboltakvöldi.

„Óli Óla átti þetta kvöld. Það er bara eitt eintak af honum Sævar. Með þessa þriggja stiga skothæfileika og enn þá með svona 75 prósent af sprengjunni sem hann var með þegar hann var alveg upp á sitt besta. Með þyngd og getur því dekkað stærri menn, með jafnvægi og ógeðslega sterkur. Leggur sig fram á báðum endum vallarins. Þetta er algjör einhyrningur í þessari deild,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson.

„Hann er einstakur leikmaður með þessa geðveiki og þetta Grindavíkurhjarta. Hann nær að hrífa menn með sér. Ég held að ég fari ekki með rangt mál þegar ég segi að ég sé búinn að spá Grindavíkurliðinu tapi í níu af tíu leikjum í okkar spá,“ sagði Sævar Sævarsson.

„Mér finnst bara ótrúlegt að þessi mannskapur sé að ná þessum árangri. Það segir ýmislegt um þjálfarana og hvað þeir ná út úr þessu liði. Þeir eru gjörsamlega að þurrausa alla hæfileikana úr þessu liði og skilja þá eftir inn á gólfi,“ sagði Sævar.

Hér fyrir neðan má sjá umræðuna um Ólaf og Grindavíkurliðið.

Klippa: Subway Körfuboltakvöld: Frammistaða Ólafs Ólafssonar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×