Hin fjölskipaða áfrýjunarnefnd kvað upp úrskurð sinn í síðustu viku. Í afar stuttu máli snerist deilan um það hvort að fyrirtæki geti slegið eign sinni á heiti fullvalda ríkis, í þessu tilviki enska orðið Iceland.
Ísland hafði betur í deilunni á fyrri stigum málsins árið 2019. Iceland Foods áfrýjaði hins vegar niðurstöðunni.
Ákveðið var að halda munnlegan málflutning vegna málsins fyrir hinni fjölskipuðu áfrýjunarnefnd, sem er afar sjaldgæft, og til marks um hversu mikilvægt það er talið. Vísir hefur fylgst grannt með gangi málsins.
Það var lögmaðurinn Ásdís Magnúsdóttir, frá Árnason Faktor, sem flutti málið fyrir hönd Íslands.
„Við erum hér til að sækja vernd fyrir nafnið á landinu okkar,“ sagði hún þegar málið var tekið fyrir í september síðastliðnum.
Sem fyrr segir var áfrýjuninni vísað frá hinni fjölskipuðu áfrýjunarnefnd og stendur því úrskurðurinn frá 2019 óhaggaður. Það þýðir að vörumerkjaskráning Iceland Foods á orðmerkinu Iceland í Evrópusambandinu er ógild og að skráningarnar skuli felldar úr gildi.
Niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar er hægt að áfrýja til Evrópudómstólsins, sem myndi þá taka lokaákvörðun í málinu. Niðurstöðuna má lesa hér og hér.