Sveinn Andri Sveinsson, verjandi annars mannsins, staðfestir niðurstöðu Landsréttar við fréttastofu.
Mennirnir höfðu setið í gæsluvarðhaldi í ellefu vikur þar til þeim var sleppt þann 13. desember með úrskurði Landsréttar. Sú ákvörðun byggði á geðmati og því að ekki stæði slík hætta af mönnunum að það réttlætti gæsluvarðhald. Ekki væri talið að árás væri yfirvofandi, eða mjög líkleg eins og áskilið samkvæmt ákvæðinu sem krafa ákæruvaldsins var byggð á.
Mennirnir voru á dögunum ákærðir fyrir tilraun til hryðjuverka með því að hafa ákveðið að valda „ótilgreindum hópi fólks, á ótilgreindum stað, bana eða stórfelldu líkamstjóni eða stefna lífi þeirra í hættu með stórfelldum eignaspjöllum, og sýnt þann ásetning ótvírætt í verki með tilgreindum hætti á tímabilinu maí til september 2022, allt í þeim tilgangi að valda almenningi verulegum ótta og mikilli ringulreið í þjóðfélaginu“.
Í úrskurði Landsréttar, sem fréttastofa hefur undir höndum, segir að samkvæmt gögnum málsins liggi fyrir upplýsingar um athafnir mannanna í aðdraganda þess að þeir voru handteknir. Undirbúningsathafnir einar og sér geta leitt til refsiábyrgðar.
„Með undirbúningsathöfnum er átt við þær athafnir eða ráðstafanir geranda sem miða að framkvæmd brots eða er ætlað að miða að framkvæmd þess en nægja þó ekki til að brot geti fullframist. Af þeim þarf þó að vera unnt að draga þá ályktun að ásetningur standi til fullframningar brots og þá að undangengnu ströngu mati á huglægri afstöðu geranda til þeirra athafna sem um ræðir, sbr. orðalag ákvæðisins um að hann hafi ótvírætt sýnt þann ásetning í verki.“
Landsréttur telur að þessar upplýsingar megi, hlutlægt séð, virða sem undirbúning að framningu þess hegningarlagabrots sem ákæra tekur til.
„Á hinn bóginn telst vera uppi í málinu vafi um hvort fullnægt sé kröfum um huglæga afstöðu varnaraðila til fullframningar þess, en niðurstaða þar um ræðst af sönnunarfærslu fyrir dómi,“ segir í úrskurði Landsréttar.
Taldi Landsréttur að samkvæmt þeirri kröfu sem gera verði við mat á huglægri afstöðu ákærða sé ófært að slá því föstu að skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi um sterkan grun sé fullnægt.
Fréttin verður uppfærð.