Aron var kynntur til leiks hjá FH í gærkvöldi við hátíðlega athöfn í Kaplakrika, degi áður en Guðmundur tilkynnti 19 manna hóp sem fer fyrir Íslands hönd á HM í handbolta í næsta mánuði.
Aron hefur um árabil verið með betri handboltamönnum heims og hann hefur einnig borið fyrirliðabandið í íslenska landsliðinu undanfarin ár.
Eftir að Guðmundur kynnti hópinn fékk Stefán Árni Pálsson, stjórnandi Seinni bylgjunnar, landsliðsþjálfarann í stutt spjall og spurði meðal annars út í endurkomu Arons til FH. Guðmundur segist skilja ákvörðun leikmannsins vel og hefur ekki áhyggjur af því að hún muni koma til með að koma niður á þeim gæðum sem Aron hefur upp á að bjóða.
„Ég átti samtal við Aron í aðdraganda þess að hann tók þessa ákvörðun og ég skil hann mjög vel,“ sagði landsliðsþjálfarinn.
„Ég hef engar áhyggjur af því gagnvart hans handbolta. Hann er að fara í gott lið og gott umhverfi og ég skil þessa ákvörðun mjög vel og finnst hún bara góð á endanum. Hann mun bara halda sér í toppstandi eins og hann hefur alltaf verið.“