Sólarhringsopnunin gildir til og með 1.janúar. Samkvæmt Hólmfríði Helgu Sigurðardóttur, upplýsingafulltrúa á velferðarsviði Reykjavíkurborgar verður staðan næst tekin að morgni 2. janúar.
Hólmfríður segir að engum hafi verið vísað frá vegna plássleysis á meðan á þessum sólarhringsopnunum hefur staðið. Öll pláss í neyðarskýlunum hafa hins vegar verið fullnýtt.
„Það hefur ekki verið fjölgun á atvikum í neyðarskýlum, sem er jákvætt í ljósi þess að neyðarskýlin eru ekki þannig skipulögð að þau þoli sólarhringsdvöl gesta í langan tíma. Bæði karlaskýlin hafa verið full og nýting umfram fjölda rúma. Konukot hefur líka flesta daga nýtt öll rúm,“ segir Hólmfríður.
Flókið að manna vaktir
Að sögn Hólmfríðar hefur reynst býsna flókið að manna vaktir undanfarna daga, enda sé starfsfólk neyðarskýla sérhæft og umframmönnun fer því á herðar fárra. „Þetta hefur þó gengið, sem má þakka ósérhlífni starfsfólks og forstöðumanna neyðarskýlanna. Bæði þarf meiri mannskap en vanalega og almennt er flókið að finna fólk sem er tilbúið að vinna yfir jól og áramót,“ segir Hólmfríður.

Neyðarskýlin eru eitt af þeim úrræðum sem velferðarsvið rekur fyrir heimilislaust fólk. Samkvæmt Hólmfríði er áhersla lögð á að fólk dvelji ekki lengi í neyðarskýlum, heldur fái varanlegt húsnæði. „Þau eru ekki hönnuð með búsetu í huga. Reykjavíkurborg rekur bæði íbúðakjarna og sambýli fyrir heimilislaust fólk en einnig stakar íbúðir víðs vegar um borgina og smáhús.“
Ánægja með dagopnum meðal gesta
Hólmfríður segir dagopnun neyðarskýlanna hafa verið vel nýtt og ljóst sé að margir gestir séu ánægðir með að hafa aðgang að skýlunum allan sólarhringinn. Þó séu vafalaust einhverjir sem kvíða því að starfsemin fari aftur í fyrra horf þegar veður skánar á ný. „Ég vil þó taka fram að veikir einstaklingar hafa alltaf aðgang að neyðarskýlinu á Lindargötu og aðrir geta komist þar í kaffi og farið á salerni“, segir Hólmfríður og minnir á að Kaffistofa Samhjálpar er opin er heimilislausu fólki og að einnig sé opið hús í Hjálpræðishernum.
„Þá hafa heimilislausar konur aðgang að Skjólinu á daginn, sem Hjálparstarf kirkjunnar rekur í góðu samstarfi við velferðarsvið. Velferðarráð hefur falið velferðarsviði að eiga samtal við þau hjálparsamtök sem sinna þjónustu við heimilislausa um möguleika á að veita hópnum aukna þjónustu.“