Pytlick greindist með Covid þegar danski leikmannahópurinn kom saman í gær en þá voru allir leikmenn liðsins skimaðir fyrir veirunni. Danska handknattleikssambandið greindi frá því í morgun að Pytlick hefði verið skikkaður í einangrun vegna jákvæðu niðurstöðunnar, sem varúðarráðstöfun.
„Þetta er veik jákvæð niðurstaða og þess vegna vonumst við til að um gamalt smit sé að ræða. En við munum festa á okkur belti og axlabönd, svo Simon verður í einangrun þangað til við skimum hann aftur á morgun - sem ætti að skýra út um hvað sé að ræða,“ er haft eftir Morten Storgaard, lækni danska liðsins, á heimasíðu handknattleikssambandsins.
Skima vegna strangra reglna
Greint var frá því í sænskum fjölmiðlum í gær að Alþjóðahandknattleikssambandið hafi samþykkt strangar Covid-reglur í kringum mótið, sem eru töluvert meira íþyngjandi en núverandi regluverk í gestgjafalöndunum, Póllandi og Svíþjóð, segja til um.
Leikmenn verða skikkaðir í fimm daga einangrun ef þeir greinast jákvæðir fyrir veirunni, en skimun mun fara fram fyrir mót, milliriðlakeppni og 8-liða úrslit.
Af þeirri ástæðu ákvað danska handknattleikssambandið að skikka alla leikmenn liðsins í Covid-próf þegar hópurinn kom saman í gær - til þess að hafa vaðið fyrir neðan sig áður en mótið hefst í næstu viku.
HM hefst þann á miðvikudaginn í næstu viku, þann 11. janúar. Ísland hefur leik degi síðar og mætir Portúgal, en er auk þess með Ungverjum og Suður-Kóreumönnum í riðli.
Fyrsti leikur Dana er við Belgíu 13. janúar en Túnis og Barein, sem stýrt er af Aroni Kristjánssyni, eru einnig í riðli Dana.