Fótbolti

Gvardiol dreymdi um að spila fyrir Liverpool

Atli Arason skrifar
Joško Gvardiol í leik með Króatíu á HM í Katar.
Joško Gvardiol í leik með Króatíu á HM í Katar. Getty Images

Joško Gvardiol, leikmaður RB Leipzig, segist hafa dreymt um að spila fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni þegar hann var yngri.

„Það væri klárlega Liverpool. Þegar ég var lítill þá horfði ég á flest alla Liverpool leiki með pabba mínum. Það er félag sem á sér stað í hjarta mínu,“ svaraði Gvardiol í viðtali við króatíska miðilinn Danas, aðspurður að því hvaða knattspyrnufélag hinn 10 ára Gvardiol myndi vilja spila fyrir.

Gvardiol er einn af eftirsóttustu varnarmönnum heimsfótboltans í dag eftir frábæra frammistöðu með króatíska landsliðinu á HM í Katar. Gvardiol hefur verið orðaður við hin ýmsu lið en mest við spænska risann Real Madrid sem og ensku liðin Chelsea og Manchester City. Leikmaðurinn var nálægt því að ganga til liðs við Chelsea síðasta sumar en ákvað frekar að skrifa undir nýjan samning við Leipzig.

„Þeir [Chelsea] gáfust ekki upp en það var ákveðið að reyna frekar á þetta í vetur og núna er veturinn kominn og við verðum að bíða og sjá hvað gerist. Það er enn þá nægur tími til stefnu,“ bætti Gvardiol við, sem er staðráðinn í því að spila í ensku úrvalsdeildinni einn daginn.

„Ég hef heillast af ensku úrvalsdeildinni síðan ég var krakki en við vitum öll hvernig deild það er. Ég veit ekki hvort ég sé nógu þroskaður enn þá til að vera tilbúinn fyrir ensku úrvalsdeildina en við verðum bara að sjá til,“ sagði Joško Gvardiol, leikmaður RB Leipzig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×